Lög Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu
1. grein.

Félagið heitir Sjálfsbjörg, félag fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Starfssvæðið er Hafnarfjörður, Bessastaðahreppur, Garðabær, Kópavogur, Reykjavík, Seltjarnarnes og Mosfellsbær.

2. grein.

Félagið er aðili að Sjálfsbjörg, landssambandi fatlaðra.

3. grein.

Markmið félagsins er, að vinna að fullkominni þátttöku og jafnrétti hreyfihamlaðra og annarra fatlaðra, á öllum sviðum þjóðlífsins.
Hafa áhrif á ríkis- og sveitarstjórnir.
Hafa áhrif á hagsmunasamtök og einstaklinga til dæmis með útgáfu á kynningarefni um málefni fatlaðra.
Efla félagslíf fatlaðs fólks.

4. grein.

Félagsmaður getur hver sá orðið sem er fatlaður (hreyfihamlaður). Ófatlað fólk getur verið í félaginu sem félagar, með kosningarétt og kjörgengi. Ófatlað fólk getur þó ekki setið í stjórn félagsins, á þingum Sjálfsbjargar, lsf. eða í stjórn þess. Heimilt er að taka inn foreldri fatlaðs barns innan 18 ára, með þeim takmörkunum að viðkomandi hefur ekki kjörgengi til landsambandsþings eða í trúnaðarstörf hjá landssambandinu.
Fullgildur félagsmaður telst sá sem greiðir félagsgjald eins og það er ákveðið á aðalfundi ár hvert. Að öðrum kosti hefur hann ekki kosningarétt á aðalfundi.
Nýja félaga ber að samþykkja inn í félagið á lögmætum félagsfundi. Þó er stjórn félagsins heimilt að taka inn í félagið hvern þann, sem flytur á félagssvæðið og hefur verið félagi í öðru Sjálfsbjargarfélagi.
Félög og stofnanir geta átt aðild að félaginu, en án atkvæðisréttar og kjörgengis.
Á aðalfundi skal greint frá fjölda nýrra félaga, hve margir félagar hafi látist og hve margir sagt sig úr félaginu á liðnu starfsári.

5. grein.

Félagsfundur er lögmætur, ef hann hefur verið boðaður bréflega með minnst þriggja sólarhringa fyrirvara eða með útvarpsauglýsingu, sem lesin er tvisvar.

6. grein.

Reikningsár félagsins er almanaksárið. Reikningsleg endurskoðun skal framkvæmd af löggiltum endurskoðanda.

7. grein.

Á aðalfundi skal kjósa formann, varaformann, gjaldkera, ritara og meðstjórnanda í stjórn auk fimm varamanna til tveggja ára.

a) Annað árið séu kosnir formaður og gjaldkeri og 3 varamenn. En hitt árið varaformaður, ritari, meðstjórnandi og 2 varamenn, einnig einn varamann í sambandsstjórn Sjálfsbjargar lsf.
b) Þá skal á hverjum aðalfundi kjósa tvo skoðunarmenn reikninga og einn til vara. Athuga þeir hag og rekstur Sjálfsbjargar.
c) Varamenn taka sæti í forföllum aðalmanna.
d) Formaður er sjálfkjörinn í sambandsstjórn Sjálfsbjargar lsf.
e) Stjórnar- og nefndarmenn skulu ekki sitja lengur en 6 ár samfellt í hverju embætti.
f) Stjórn skal skipa þriggja manna kjörnefnd fyrir janúarlok ár hvert og velur henni formann. Nefndin annast undirbúning og framkvæmd stjórnarkjörs og kosningar á aðalfundi í samvinnu við stjórn félagsins.
g) Tillögur kjörnefndar skulu liggja frammi á skrifstofu félagsins í fjórar vikur fyrir aðalfund og skal framlagning auglýst.
h) Tillögum félagsmanna um einstaka menn til stjórnarkjörs skulu berast skrifstofu félagsins eða kjörnefnd minnst 2 vikum fyrir aðalfund og vera skriflegar.

8. grein.

Aðalfund skal halda fyrir lok aprílmánaðar ár hvert og skal hann boðaður bréflega með minnst tveggja vikna fyrirvara. Tilgreina skal í fundarboði ef fyrir liggja tillögur til lagabreytinga.
Fastir liðir aðalfundar skulu vera:
a) Skýrsla stjórnar um störf félagsins á síðastliðnu starfsári og kynning á starfstilhögun komandi starfsárs.
b) Afgreiddir endurskoðaðir reikningar félagsins.
c) Lagabreytingar.
d) Ákvörðun um félagsgjald.
e) Kosningar samkvæmt 7. grein.
f) Önnur mál.

9. grein.

Lögum þessum verður einungis breytt á löglegum aðalfundi og þarf samþykki 2/3 hluta greiddra atkvæða svo lagabreyting nái fram að ganga. Til þess að slíta félaginu eða sameina það öðrum félagsskap, þarf 3/4 hluta greiddra atkvæða á löglegum aðalfundi
Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins í síðasta lagi 1/2 mánuði fyrir aðalfund og liggja frammi á skrifstofu félagsins minnst viku fyrir fundinn.

10. grein.

Hafi verið samþykkt að slíta félaginu skulu eignir þess, ef einhverjar eru, afhendast stjórn Sjálfsbjargar, landssambands fatlaðra, er skal annast þær og ávaxta, uns annað félag með sama starfsgrundvöll rís upp á félagssvæðinu. Er þá skylt að afhenda því eignirnar til fullra afnota. Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi eldri lög Sjálfsbjargar. Þannig samþykkt á aðalfundi Sjálfsbjargar félags fatlaðra á höfuðborgarsvæðinu 29. apríl 2004.